KeyNatura og SagaMedica sameinast undir SagaNatura

KeyNatura og SagaMedica sameinast undir SagaNatura
september 30, 2018 Baldur
In Fréttir

KeyNatura og SagaMedica hafa sameinast undir nýju nafni, SagaNatura. Fyrirtækin hafa verið að vinna þétt saman undir sama þaki í eitt ár og hefur samstarfið gengið ljómandi vel hingað til áður en það varð að sameiningunni. SagaNatura er leiðandi íslenskt fyrirtæki í náttúruvörum og hefur náð góðum árangri bæði hér heima fyrir sem og erlendis. Afurðir SagaNatura er hægt að finna auk Íslands í Svíþjóð, Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi, Lettlandi, Frakklandi, Kína og Nýja-Sjálandi.

Í viðtali við aðstoðarframkvæmdastjóra SagaNatura, Dr. Lilju Kjalarsdóttur í Viðskiptablaðinu tjáði hún sig um sameininguna.

„Sameiningarferlið hefur verið í gangi frá því í byrjun árs en sameiningin tók svo formlega gildi í sumar. Núna fyrst erum við að kynna hið sameiginlega félag undir nýju heiti SagaNatura, þó við séum reyndar ekki tilbúin með nýja logoið. Við höldum nefnilega vörumerkjum KeyNatura, fyrir vörur framleiddar úr Astaxanthin efninu úr þörungum og SagaMedica, sem eru þá vörur úr íslenskri hvönn, áfram aðskildum.

Þannig höfum við einnig rúm fyrir önnur vörumerki í framtíðinni undir okkar hatti ef við tökum samruna við önnur smærri fyrirtæki en þannig sjáum við fyrir okkur að halda áfram að stækka. Það er okkar takmark að 80% af tekjum félagsins verði erlendis frá og við verðum einna stærst í útflutningi á íslenskri náttúruvöru, en í dag er hlutfallið um helmingur.“

SagaNatura lítur því björtum augum á framtíðina og sér mörg tækifæri á erlendri grundu.